Anna Fríða Jónsdóttir

Blæti

The Artist View:

Stynjandi náttúra kröftuglega bundin okkar hégómlegu neysluhyggju.

Ásdís Sif

Umbreyting

The Artist View:

Fyrir þetta verkefni ákvað ég að teikna og skrifa texta vegna þess að ég geng nú í gegnum aðlögunartímabil. Að lokum þöktu litirnir og teikningarnar textann. Textinn tengdist frelsinu og teikningarnar lýstu því.

Daníel Björnsson

Hærri markmið – Stjúpid Amatör

The Artist View:

Sjáðu fyrir þér tröppur. Þú getur velt fyrir þér fremstu þrepunum meðan þú safnar hugrekki til að taka fyrstu skrefin. Þú horfir á það sem hægt er að sannreyna, spegla eða mæla. Næstum eins og myndatökuvél myndi staðfesta það. Þú öðlast hugrekki til að fara af stað. Í öðru og þriðja skrefi felst valið að forgangsraða því sem þú metur að skipti máli eða skipti ekki máli út frá þessum uppsöfnuðu „staðreyndum“ til að ná fram því sem hefur þýðingu, persónulega eða almenna. Segjum að í fjórða þrepi eða svo sé hægt að draga ályktanir grundvallaðar á því sem skipti máli. Það leiðir til þess í fimmtu tröppu að hægt er öðlast vissu eða sannfæringu sem í sjötta þrepi leiðir til aðgerða í næstu þrepum. Með lifandi ímyndunarafli skýrist ófæddur en framkvæmanlegur, mögulegur raunveruleiki sem er aflmeiri og skiptir meira máli en nakin hreyfingarlaus spegilmyndin. Hafa þarf í huga að allt sem við teljum sannaðar staðreyndir og spegilmyndir voru upphaflega grunsemdir eða hugboð. Morgundagurinn og allir morgundagar framtíðarinnar eru ekkert annað en skref frá spegilmyndinni í núinu til framtíðar.

Erla Þórarinsdóttir

Þægilegur á flekaskilum

The Artist View:

Kollurinn sem er notaður hér, er skráður sem “BEKVÄM” hjá Ikea. Þýtt á ensku merkir orðið “Convenient.” Þegar kollurinn var kominn á vinnustofu mína í Reykjavík, voru þessi þægindi staðsett á eyju á miðju Atlantshafinu þar sem tvær heimsálfur mætast. Í sprungu milli bandarísku og evrópsku heimsálfanna.

Ég notaði sjálflýsandi litarefni, sem glóir með svörtu ljósi, sem áminningu um þægilega staðsetningu í þessari sprungu.

Freyja Eilíf

Búseta

The Artist View:

Sjónrænir hættir og svipmót á heimili skapa hvers manns heimilisbrag og „Búseta“ er kollur sem Freyja vann úr innblæstri frá eigin íverustöðum, þrá fyrir því heimilislega og söknuði eftir liðinni tíð. Búseta býður ykkur velkomin í heimkynni myndlistarmannsins.

Gabríela Friðriksdóttir

KABALEVSKY

The Artist View:

Kollurinn er svo fullkomlega fúnksjónalískur að það kviknuðu strax hjá mér hugmyndir hvað gera skildi við hann.  Fúnkískir hlutir eru andlega gefandi og kveikja upp í hugmyndabálinu.  Í þetta sinn valdi ég lágmyndina, því hún á huga minn allan um þessar mundir. Lakkríslitina notaði ég mikið fyrst í listsköpun minni, svo það var gaman að leiða þessa tvo hesta saman og þessi tvenna er því útkoman.

Halldór Ragnarsson

61 bleikur

The Artist View:

Ég ákvað að vinna með litinn bleikan þar sem mér hefur alltaf fundist hann eiga sterkan sess í minni skynjun um liti, eingöngu vegna þess að hann er einn af mínum uppáhaldslitum (ef svo má segja) en þó á sama tíma minn versti óvinur. Það er nefnilega þessi eini tónn af litnum sem fyllir fagurfræðileg gildi fyrir mér og hann passar eiginlega við allt þar sem hann er einhvern veginn svo fullkominn fyrir mér. En svo eru öll hin afbrigðin af tónunum í litnum sem mér finnst algjörlega off-limits og í raun ofboðslega fráhrindandi. Þannig að ég ákvað að vinna með þessar andstæðu skoðanir á þessum einum lit í þessu verkefni og jafnvel rannsaka hvað gerist fagurfræðilega þegar maður setur saman ofgnótt af mismunandi tónum af sama lit inn í eina mublu. Og þar sem það eru 61 hliðar á kollinum, ákvað ég að blanda 61 mismunandi tónum af litnum og útkoman varð kollurinn “61 bleikur”

Jón Óskar

Leitin að Rotman

The Artist View:

„Hvort sem það eru risastórar málaðar portrettmyndir, myndir sögulegra atburða eða horfins tíðaranda eða andrúmslofts, teikningar, ljósmyndir eða grafík, alltaf skín í gegn hinn meðvitaði skilningur Jóns Óskar á því hvernig fjarvera og nærvera viðfangsins takast á í myndfletinum. Oft í vinnuferli sem ber vott um átök og ofbeldi. Sjálfur myndflöturinn verður þannig eins og vígvöllur þar sem eftir sitja slitrur úr átökum málarans og fyrirmyndar verksins, sem engu að síður er löngu búin að yfirgefa leikinn og hefur einungis skilið eftir óljósar tætlur af nærveru sinni.” – Ólafur Gíslason

Kristinn Már Pálmason

9 Eater – Time Machine

The Artist View:

Ég hafði kollinn fyrir augunum óhreyfðan í um viku og velti vöngum. Kollurinn er ákaflega praktískur hlutur en myndlist er það sjaldan. Mér fannst það því skylda mín að gefa honum einhverskonar notagildi í staðinn fyrir það sem ég tók.

Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég þyrfti að gera tímavél. Síðan 2009 hef ég unnið verk sem eru byggð á skífum úra, en ávalt án vísa. Þannig fjalla ég um tímann um leið og tímaleysið. “9 eater” er vísun í vissa tegund úra þar sem innri sekúnduskífan er staðsett yfir 9 á aðal skífunni. Mér fannst tilvalið að nota þessa tegund skífu á tímavélina mína. Þar sem sekúnduskífan hefur ekki einungis étið kl. 9 þá telur hún heldur ekki neinar sekúndur því hún hefur enga vísa frekar en móðir hennar klukkustunda og mínútuskífan. Þarna eru því komnar tvær and-tíma vísanir en tveir mínusar gera jú einn plús og þar höfum við gangverk vélarinnar. Ég vil þó á þessum tímapunkti eindregið vara við notkun hennar til tímaferðalaga þar sem um frumgerð er að ræða og ekki hægt að vita hvenær í tímanum maður lendir né hvort maður kemst nokkurn tíma til baka.

Loji Höskuldsson

Fjórir hversdagslegir kaktusar á kolli

The Artist View:

Mig langaði að kollurinn héldi sínu upprunalega gagni. Að hann myndi ennþá þjóna stuttum líkömum eða stuttum höndum. Hann væri ákveðin framlenging á búknum. Einnig á að vera hægt að tylla sér á hann ef gestir væru í heimsókn og allir stólar og kollar væru uppteknir. Þá væri hægt að tylla sér á stólinn / kollinn. Stóllinn eða kollinn nota ég sem nokkurs konar blindramma fyrir verkin mín. Kaktusar eru á báðum hliðum og vildi ég hafa myndefnið hversdagslegt í takt við hið hversdagslega hlutverk stólsins.

Magnús Helgason

KRYFJA. Því sag er bara spennandi

The Artist View:

Verk mín stjórnast af náttúrulegum en þó skipulögðum tilviljunum.”  Þegar ég tók að mér að skoða vel þekktan og fjöldaframleiddan grip í nýju ljósi, ákvað ég einfaldlega að kryfja hann og breyta í frumeindir. Þá er hægt að byrja alveg upp á nýtt.

Sara Riel

Um koll #1 og #2

The Artist View:

Kollurinn vafðist fyrir mér. Til að byrja með málaði ég hann, síðan tók ég hann í sundur, síðan létt brenndi ég kollinn, setti hann aftur saman. Allt kom fyrir ekkert, kollurinn hélt áfram að vera hundleiðinleg Ikea hönnun. Eftir mikla þráhyggju og basl byrjaði hann að hverfa, hægt, en örugglega. Ég brenndi kollinn í kolamola, barði þá og lamdi niður í smáar agnir og eftir stóðu tvær dollur með kolamolum og nokkrir bitar sem ekki vildu mölvast.

Kolin í sjálfu sér eru falleg, þau glitra og hafa djúpan myrkan svartan tón, efniskennd sem er sérstætt og það vildi ég nota, helst eins óbreytt og hægt var.

Verkin eru tvö. Annað er skuggamynd kollsins, þar sem kolin eru steypt ofan í formið með resin. Þannig fá kolin að njóta sín, eru varanlega fryst og ekki smitandi.

Hitt verkið eru afgangsbitarnir rammaðir inn í ramma sem á stendur Um Koll.

Allur kollurinn var nýttur fyrir utan skrúfurnar.

2017-03-23T19:14:11+00:00 March 10th, 2017|Uncategorized|0 Comments